Wednesday, April 16, 2008

Niðurhal kvikmynda - ÞJÓFNAÐUR


Það er mikið talað um niðurhal af netinu og ólöglega afritun bíómynda og tónlistar. Þetta er auðvitað gífurlega leiðinlegt fyrir kvikmyndaframleiðendur sem selja fyrir vikið færri eintök af myndunum sínum eftir að búið er að gengisfella þær. Það tímir enginn að fara í bíó fyrir 1300 kr. á mynd sem hann getur séð heima hjá sér fyrir tíkall. Það lítur þó út fyrir það að þetta sé óafturkræf þróun, og því er kannski nær að hætta að reyna að finna leið til að koma í veg fyrir að fólk sé að hala kvikmyndum niður af netinu, en finna þess í stað leið til að græða á því.

Nú þéna sumir tónlistamenn (granted, frekar minni sveitir en stórar) allt að 90% tekna sinna á því að halda tónleika og því hafa ýmsir, t.d. Greenday, tekið upp á því að setja heilu plöturnar á netið, þannig að hver sem er geti downloadað þeim ókeypis. Það eykur einfaldlega aðsókn á tónleika. Það er spurning hvort að það sé ekki hægt að finna upp á einhverju svipuðu fyrir kvikmyndabransann. Reyna að „go with the flow“.

Það er algeng skoðun fróðra manna að kvikmyndalistin í dag, með allar þessar risa budget Hollywood myndir, sé stöðnuð. Þegar að hver mynd kosta margar milljónir dollara þá þorir enginn að taka séns, að prufa eitthvað nýtt.

Við getum prufað að líta á þessa niðurhals þróun sem blessun, frekar en bölvun. Hér eru nokkrar mögulegar aðferðir til að grípa í taumana:

1. Auglýsingar

Það væri hægt að setja auglýsingar í upphaf og lok mynda og jafnvel í miðja mynd. Það er meira að segja hægt að troða auglýsingum inn í söguþráðinn. Við skulum ekkert vera að dansa í kring um það að það er stanslaust verið að reyna að hafa áhrif á hvernig við hugsum, sérstaklega í þessum dýrari Hollywood myndum, og þetta væri ekkert afleidd viðbót. Væri það svo skelfilegt að Forrest Gump æti t.d. súkkulaði frá NÉSTLÉ© frekar en einhverju ónefndu fyrirtæki? Sérstaklega ef það þýðir að myndin verði ókeypis fyrir alla í heiminum. Ókei, ég geri mér grein fyrir því að ein auglýsing borgar ekki næstum því brúsann, en þú veist, þetta er allavega ágætis byrjun.

2. Lækka verðið í bíó

Segir sig sjálft. Jafnvel að maður fái myndina á dvd með bíómiðanum. Það væri geðveikt.

3. Breyta kvikmyndaforminu

Hvernig væri t.d. að stytta bíómyndir? Það getur verið alveg jafn skemmtilegt að horfa á vel gerða 20 mínútna stuttmynd sem kostar nánast ekkert að framleiða og að horfa á 200 milljón dollara bíómynd með einhverjum rosa frægum leikurum sem eru bara frægir fyrir algjöra heppni.

Æji, ég skal alveg viðurkenna að ég veit voða lítið um þetta. En ég veit samt að það er ómögulegt að berjast gegn þessari þróunn mikið lengur. Ég ætla að halda áfram að spara mér ca. 50 000 kr á ári og horfa á ólöglegar kópíur. Því miður.

Hollywood, roll with the punches!

3 comments:

Unknown said...

Ég er algjörlega sammála því að það er eina vitið fyrir framleiðendur og útgefendur að reyna að nýta sér þessa þróun frekar en að sporna við henni. Og hvað íslensku bíóhúsin varðar þá er þetta náttúrulega fáránlegt að rukka 1300 krónur fyrir eina bíómynd, ég get allavega sagt fyrir mitt leyti að þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á mína bíóaðsókn.

Ég veit nú ekki alveg hvort það sé sniðugt að skella ennþá fleiri auglýsingum fyrir framan myndirnar og alls alls alls ekki inn í miðja mynd. Líst þá betur á óbeinar auglýsingar, svona eins og í Casino Royale t.d. og fleiri myndum, það að Sony á stóran hlut í MGM sem framleiddi myndina leiddi til þess að nánast öll tæki sem sáust í myndinni voru framleidda af Sony með einum eða öðrum hætti. Mér finnst þannig ágætt ef það leiðir til lægra verðs.
Ég styð líka þá hugmynd að eyða aðeins minni pening í myndirnar, einmitt svo að menn geti leyft sér að taka meiri áhættu. Þessi sama þróun er líka að eiga sér stað á tölvuleikjamarkaðnum og er ekkert sérstaklega skemmtileg.
Ég tel persónulega að framtíðin liggji í fyrirframgreiddu niðurhali þar sem fólk borgar bara hóflega ákveðið verð fyrir myndir og þætti og dlar þeim síðan bara á tölvuna sína. Það sparar dreifingarkostnað ábyggilega eitthvað. Vissulega munu einhverjir vilja eiga myndina á disk en það er þá bara hægt að gefa út svona Collector's edition með veglegum aukahlutum fyrir þá sem það vilja. Síðan held ég að til að skapa grundvöll fyrir þetta borgaða niðurhal þá virki best að taka bara hart á þeim síðum eða einstaklingum sem gera fólki kleift að nálgast efni sem ætti með réttu að borga fyrir. Það verða náttúrulega til milljón síður og serverar með efni sem á að vera ókeypis. En þetta held ég að gæti verið mjög sniðugt og gott, sérstaklega fyrir upprennandi listamenn þar sem hægt væri að hafa það þannig að þú borgir bara eitthvað ákveðið, 100-500 kall kannski og þá getir þú dlað öllu efni með þeim listamanni. Síðan þegar hann fer að verða vinsælli getur hann farið að hækka verðið og rukka sérstaklega fyrir einstök verk.
En ég get ábyggilega talað endalaust um þetta, ætli þetta sé ekki orðið nokkuð gott í bili.

Annars, hvaðan kom þessi mynd eiginlega? Fín mynd en sé þessar gellur ekki alveg fyrir mér að rippa DVD myndir...

Emil said...

Ég gúglaði "internet theft"

Siggi Palli said...

Ágætisfærsla. 6 stig.

Mér finnst verðið samt ekki einu sinni aðalgallinn við það að fara í bíó (þó það myndi kannski vera það ef maður færi í bíó 60 sinnum á ári eins og maður gerði á menntaskólaárunum). Mér finnst verst hvað bíóupplifunin verður sífellt verri.
Myndir byrja örugglega 10 mínútum seinna nú en fyrir 10 árum síðan, bara út af auglýsingum. Fyrir 10 árum síðan voru varla auglýsingar fyrir myndir, nema bara skjáauglýsinga, og svo byrjuðu sýnishornin bara á mínútunni og myndin kannski 7-8 mínútum seinna. Og hefur verðið eitthvað lækkað með öllum þessum auglýsingum? Nei.
Málið er líka að Hollywood tekur ekki inn nema brot af tekjunum með bíósýningum, peningurinn er í því sem kallað er "residuals", sem er DVD, sjónvarp, netið, varningur og leikföng.