Monday, October 22, 2007

RIFF: Black Sheep



Ég komst ekki á neinar RIFF myndir, þannig að ég þurfti að redda þessum myndum á einhvern annan hátt. Fyrsta reddið var Black Sheep á DVD í gær. Ég var algjörlega fordómalaus gagnvart þessari mynd, vissi ekkert um hvað hún var. Í grófum dráttum fjallar þessi mynd um drápskindur. Erfðabreyttar, mannáts drápkindur.

Í aðeins fínni dráttum fjallar hún um ungan mann (Henry) sem elst upp á bóndabæ í Nýja Sjálandi og verður fyrir skelfilegri reynslu sem krakki. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg atburðarásina þennan örlagaríka dag en ég held að þetta hafi verið einhvernvegin svona:

Einn dag þegar Henry kemur heim af fjöllunum, eftir að hafa smalað voða mikið, hræðir bróðir hans úr honum líftóruna með því að drepa kind fara í hana (nei, ekki ullina heldur kindina, með haus og öllu) og öskra geðveikt mikið á hann. Henry verður skiljanlega hysterískur og er rétt að átta sig á sjokkinu þegar Mrs. Mac, ráðskona heimilisins kemur að þessum undarlega leik og segir þeim bræðrunum að pabbi þeirra sé dáinn.

Nokkrum árum síðar kemur Henry aftur heim í heiðarbólið til þess að feisa kinda-fóbíuna sem hann er búinn að þurfa að kljást við, en kemst fljótlega að því að bróðir hans er byrjaður að erfðabreyta kindum og búa til stórhættulegar uppvakningskindur sem éta kjöt.

Meira bullið!

Ókei, ég var að lesa yfir samantektina hér að ofan og ég átta mig á því að söguþráðurinn er ekki upp á marga fiska. Ef ég hefði heyrt þetta allt þá efast ég um að ég hefði horft á þessa mynd. Þó verð ég að viðurkenna að hún var bara helvíti fín. Hún kostaði augljóslega ekki mikið en það er samt þægilegt að horfa á hana. Þetta er svona A-mynd í B-myndar búningi. Eða öfugt. Tæknibrellurnar eru skelfilega asnalegar, en það er einhvernvegin allt í lagi. Falllegt landslag og skemmtileg samtöl bjarga málunum.

Leikurinn er ekkert sérstakur, en samt er ekkert sem fer í taugarnar á manni við hann. Það held ég að bjargi myndinni dáldið, oft er það skelfilegur leikur sem kemur upp um lágt budget. Leikstjórinn, Jonathan King, hefur ekki gert neitt annað sem ég hef heyrt um, en hann lofar góðu. Fín mynd.

3 af 6
***

1 comment:

Anonymous said...

Þetta er nú meira bullið. Kindur éta ekki einu sinni kjöt.