Fyrir ca. viku síðan fór ég á Veðramót Guðnýar Halldórsdóttur. Ég var ekki búinn að heyra mikið um myndina, þannig að ég var ekki búinn að byggja upp væntingarnar sem svo margir eru að tala um. Það er ofboðslega gaman þegar bíómyndir koma manni að óvart (það á líka við um The General sem ég ætla að blogga um seinna.
Myndin fjallar um þrjá krakka (sem taka að sér að reka vandræðaheimili fyrir unglinga, með því markmiði að ala börnin upp með hippa-hugsjónum. Það gengur svona misvel hjá þeim og þau læra mikið af reynslunni. Það mætti segja að myndin sé þroskasaga þessara þriggja krakka (leikin af Hilmi Snæ, Tinnu Hrafnsdóttur og Atla Rafni) en þau komast m.a. að því að hippahugsjónirnar virka ekki alltaf.
Ég er alvarlega að pæla í að skella Veðramótum á topp 10 listann minn. Hún er ein besta íslenska mynd sem ég hef séð. Það hefur bara sýnt sig að við Íslendingar ættum bara að einbeita okkur að því sem við gerum best, þ.e. að búa til sorglegar, raunsæar bíómyndir. Það er reyndar alls ekki hægt að segja að Veðramót sé grámygluleg eða þurr kvikmynd, hún er mjög litrík og skemmtileg. Ég hló t.d. miklu meira að henni en Astrópíu (ég hló reyndar meira af trailernum af Astrópíu en myndinni sjálfri). Leikurinn, sagan, handritið, tónlistin, allt er þetta mjög gott og ég verð að viðurkenna að ég veit ekki nóg um kvikmyndir til þess að sjá gallann á klippingunni sem fólk er að kvarta yfir. Staðreyndin er einfaldlega sú að ég datt algjörlega inn í söguna og sat meira að segja eftir að myndin var búin og textinn byrjaður að rúlla og hugsaði um atburðarrásina.
Skilaboðin sem ég las úr myndinni voru sú að þótt að kærleikur og almennur hippaskapur leysi kannski ekki öll vandamál, þá kemur hann í veg fyrir þau. Vandræðagemsarnir á heimilinu höfðu allir sömu sögu að segja: Engum þótti vænt um þau (og það var of seint í rassinn gripið að reyna að bjarga þeim úr þessu).
Góð mynd.
4 af 6
****
No comments:
Post a Comment