Sunday, September 9, 2007

Shawshank Redemtion og Mona Lisa Smile

Það var videokvöld hjá okkur Önnu Betu í gær. Við byrjuðum kvöldið á Shawshank Redemption, vegna þess að hún hafði aldrei séð hana fyrr. Ég rembdist við að gera sem minnst úr myndinni, vegna þess að ég hef svo oft lent í því að fólk skemmi góðar myndir fyrir mér með því að hæpa þær of mikið upp. Stundum vildi hún spjalla um eitthvað annað en myndina og þá fannst mér hún alltaf vera að missa af mikilvægum senum. Þegar ég fór svo að pæla í því, þá var engin kafli í myndinni sem hún hefði mátt missa af. Ætli það sé ekki mælikvarði á góðar bíómyndir? Þegar hver einasta sena er nauðsynleg til þess að upplifa myndina rétt.


The Shawshank Redemption er ekta feel-good mynd. Maður sveiflast milli þess að vera með kökk í hálsinum og að skælbrosa framan í alla morðingjana og glæpamennina. Þar sem ég var að horfa á hana í svona 10. skiptið þá ákvað ég að fylgjast sérstaklega með tónlistinni í þetta skiptið. Hún er gífurlega útpæld. Þegar Andy varpar t.d. óperutónlistinni yfir allt hátalarakerfið í fangelsinu er ekki búin að vera nein tónlist í dálitla stund til þess að maður kunni betur að meta söng kvennanna tveggja úr Brúðkaupi Figaros.

5 af 6

*****

Eftir þetta meistaraverk horfðum við á Mona Lisa Smile sem er létt drama um frjálslyndan listasögukennara í íhaldsömum skóla í Wellesley í Bandaríkjunum, sem reynir að kenna nemendum sínum (stelpum á 6. áratugnum) að mótmæla yfirvaldinu. Stúlkurnar eru allar á leiðinni í hjónaband og kennslan í skólanum gengur að mestu leyti út á það að undirbúa þær undir væntingar eiginmannsins.


Mike Newell (Pushing Tin, HP & the Goblet of Fire) leikstýrir myndinni og Julia Roberts, Kirsten Dunst, Julia Stiles og fleiri góðir leika stór hlutverk í henni. Hún er að mörgu leiti mjög svipuð Dead Poets Society en mér finnst hún ekki eins góð, einfaldlega vegna þess að hún er of væmin og fyrirsjáanleg. Það er lika allt of mikið af stereotýpum, t.d. samband nördans og feitu stelpunnar og montni, sjarmerandi ítölskukennarinn. Karakterinn sem Kirsten Dunst lék fór krónískt í taugarnar á mér, trúlega vegna þess að hún gerði það ekki mjög vel.

Mona Lisa Smile myndi passa mjög vel inn í Juliu Roberts safnið mitt, sem nú samanstendur af Erin Brockowich, Pretty Woman, Stepmom og Runnaway Bride. Go, GIRL POWER!!!

3 af 6

***

No comments: